Skjaldborgarbíó

Húsið stendur við Aðalstræti 27 á Patreksfirði og er í daglegu tali kallað Skjaldborg. Í dag er rekið bíó í húsinu og hefur Lionsklúbbur Patreksfjarðar haldið utan um þær sýningar.

Saga hússins hófst 19. mars 1932. Á fundi hjá sjálfstæðisfélaginu Skildi á Patreksfirði var ákveðið að skipa nefnd er skildi leggja fram tillögur í húsnæðismálum félagsins. Í nefndinni sátu Friðþjófur Ó. Jóhannesson, Ólafur F. Ólafsson og Ottó Guðjónsson. Þann 20. apríl 1933 lagði nefndin fram tillögu sína; að sækja um leyfi til að byggja samkomuhús í kauptúninu. En tæpu ári síðan setti Friðþjófur Ó. Jóhannesson svo fram fullmótaða tillögu um sjálft samkomuhúsið; að byggja hús sem yrði 20 x 10 metrar að stærð, úr trégrind en klætt að utan með svokallaðri Treelex klæðningu. Á fundi þann 11. nóvember 1934 var tilllaga Friðþjófs samþykkt og ákveðið að húsið skyldi heita Skjaldborg. Fyrsti fundurinn í Skjaldborg var svo haldinn þann 23. maí 1935.

Um 1980 var Skjaldborg gerð upp að miklu leyti að innan. Var þá ráðist í að útbúa bíóaðstöðu í húsinu. Var sú aðstaða öll til fyrirmyndar og með því besta sem þekktist á þeim tíma.

Árið 2003 tóku Lionsmenn svo við Skjaldborg en þá var húsið mjög illa farið að utan sem innan. Félagar Lions réðust strax í margvíslegar endurbætur á því með það fyrir augum að koma þar aftur af stað bíósýningum. Var sú vinna öll unnin í sjálfboðavinnu. Skipt var um þak, nýjum gluggum var komið fyrir á tveimur hliðum og húsið fékk nýja útihurð. Eins voru raflagnir endurnýjaðar, skipt var um ofna, anddyrið var gert upp og bil á milli sæta í salnum var breikkað. Þegar þessari endurbyggingu hússins var lokið hófust þar reglulegar bíósýningar á nýjan leik.